Fabio Capello, stjóri Real Madrid, hefur beðist afsökunar á að hafa sýnt tveimur áhorfendum fingurinn í viðureign Real Madrid og Zaragoza í gærkvöldi. Capello hefur verið undir miklu álagi að undanförnu og svo virðist sem að það sé farið að sjá á sálinni á ítalska stjóranum.
"Ég vil biðjast afsökunar á því sem ég gerði. Sem þjálfari liðsins á ég ekki að láta svona sjást," sagði Capello í morgun, en spænsku blöðin voru uppfull af ljósmyndum sem sýndu gjörðir þjálfarans svo ekki verður deilt um sök hans. Capello segist hafa beint fingrinum að tveimur ákveðnum einstaklingum sem hefðu lagt hann í einelti frá því að hann stjórnaði Real Madrid fyrir 10 árum.
"Þessir tveir menn hafa móðgað mig í hvert einasta skipti sem ég hef mætt Zaragosa á þessum velli og í dag gengu þeir of langt. Þetta eru þeir sömu og ég þurfti að þola skítkast frá fyrir 10 árum síðan því ég þekki raddir þeirra," bætti sá ítalski við.