Viðskipti innlent

Metgjalddagi hafði lítil áhrif á gengi

Krónubréf að nafnvirði sextíu milljarðar króna féllu á gjalddaga í gær. Þetta var stærsti einstaki krónubréfagjalddagi frá því að útgáfa þeirra hófst í ágúst 2005.

Krónan veiktist um 0,38 prósent í gær. Ragnhildur Jónsdóttir, sérfræðingur hjá Greiningu Glitnis, segir veikinguna sennilega ekki að rekja til gjalddaganna. „Við teljum að áhrifin af þeim hafi þegar verið komin fram. Það er líklegra að veikingu krónunnar í síðustu viku megi að einhverju leyti rekja til gjalddaganna nú, þó að erfitt sé að segja til um það með vissu.“ Greiningardeildin áætlar að um helmingur þeirra bréfa sem féllu á gjalddaga í gær hafi þegar verið framlengdur.

Krónubréfaútgáfa í september nemur nú þrettán milljörðum króna en bréf á gjalddaga nema 82,5 milljörðum. Þetta er í fyrsta sinn sem meira magn bréfa fellur á gjalddaga en er útgefið í einum mánuði. Í júlí og ágúst var mun meira magn krónubréfa útgefið en féll á gjalddaga. Ætla má að hluti af þeim útgáfum hafi verið framlenging á bréfunum sem féllu á gjalddaga nú.

„Það virðist vera að draga aðeins úr krónubréfaútgáfu. Það skýrist helst af aukinni áhættufælni og lausafjárskorti á alþjóðamörkuðum í kjölfar vandræða á ótryggum húsnæðismarkaði í Banda­ríkjunum,“ segir Ragn­hildur.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×