Viðskipti innlent

Ólafur krækti í Goldman Sachs

Ólafur Jóhann Ólafsson, rithöfundur og kaupsýslumaður. Íslendingar hafa sérstöðu í orkumálum að mati Ólafs Jóhanns. Hann segir að í Geysi Green sé allt til staðar; þekking, reynsla, hugvit og fjármagn.
Ólafur Jóhann Ólafsson, rithöfundur og kaupsýslumaður. Íslendingar hafa sérstöðu í orkumálum að mati Ólafs Jóhanns. Hann segir að í Geysi Green sé allt til staðar; þekking, reynsla, hugvit og fjármagn. Mynd/Vilhelm

Geysir Green Energy er langtímafjárfesting að sögn Ólafs Jóhanns Ólafssonar. Hann telur Goldman Sachs besta erlenda fjárfesti sem völ er á.

Ólafur Jóhann Ólafsson, fjárfestir og rithöfundur, hafði milligöngu um komu bandaríska fjárfestingar­bankans Goldman Sachs inn í fjárfestahóp Geysis Green Energy.

Samanlagt munu Ólafur Jóhann og Goldman Sach eiga um 8,5 prósenta hlut í Geysi í tveimur aðskildum eignarhaldsfélögum. Ólafur Jóhann, sem hefur marg­sinnis unnið með Goldman Sachs gegnum tíðina, fer með um þriggja prósenta eignarhlut.

„Þegar það kom fyrst til tals að ég kæmi inn í hluthafahópinn ræddum við um hvað vantaði til að við færum inn á leikvöllinn með sem allra besta lið. Allir voru sammála um að okkur vantaði erlendan samstarfsaðila. Goldman Sachs er hreinlega sá besti sem völ er á, bæði vegna stöðu hans sem fjárfestingarbanka og innan orkugeirans,“ segir Ólafur Jóhann, en Goldman Sachs starfrækir um tveggja milljarða Bandaríkjadala fjárfestingarsjóð sem fjárfestir í vistvænni orku.

Ólafur Jóhann segist lengi hafa haft mikinn áhuga á orkugeiranum, enda þau umhverfisáhrif sem notkun olía og kola hefur haft öllum ljós. Hann segir Íslendinga hafa mikla sérstöðu í þessum geira og raunar í fremstu röð í heiminum. „Í Geysi er allt í senn þekking, reynsla, hugvit og fjármagn. Meginhugmyndin er að fara með þetta til útlanda. Ég hugsa þetta sem langtímafjárfestingu, það er enginn skjótfenginn gróði í þessu og engin gullæðisstemning í mönnum.“

Goldman Sachs er meðal stærstu fjárfestingarbanka í heimi, jafnframt því að vera einn sá elsti og virtasti. Bankinn var stofnaður árið 1869 og er með höfuðstöðvar í New York.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×