Brasilíski markvörðurinn hjá AC Milan, Dida, segir að markmið leikmanna hjá liðinu sé að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. AC Milan hefur gengið afleitlega það sem af er leiktíð og situr sem stendur í 12. sæti deildarinnar.
Síðasti mánuðurinn hefur hins vegar reynst heillaríkur fyrir Milan og hefur liðið ekki tapað í síðustu sex leikjum sínum. Þrátt fyrir að liðið sé í 12. sæti munar aðeins sex stigum á því og Catania, sem situr í fjórða sætinu og því síðasta sem gefur rétt í Meistaradeildinni að ári.
“Við erum staðráðnir í að bæta leik okkar á næsta ári. Okkar takmark er að komast í Meistaradeildina,” segir Dida.