John Terry, fyrirliði Chelsea, er á leið til Frakklands þar sem hann mun hitta sérfræðing í bakmeiðslum. Terry hefur misst af síðustu fjórum leikjum ensku meistaranna vegna meiðslanna og hefur vörn liðsins verið sem hriplekt gatasigti í þeim leikjum.
Áðurnefndur franskur sérfræðingur mun hafa úrslitavald um hvort Terry fari í aðgerð eður ei, en fari svo að skera þurfi hann upp mun enski landsliðsmaðurinn vera frá æfingum og keppni í nokkrar vikur – jafnvel mánuði. Ekki þarf að fara mörgum orðum um hversu mikið áfall það yrði fyrir Chelsea.