Knattspyrnufélagið Everton hefur farið þess á leit við Jose Mourinho knattspyrnustjóra Chelsea að hann biðjist afsökunar á ummælum sem hann lét falla um Andy Johnson, framherja Everton eftir leik liðanna í gær. Mourinho sagði Johnson hafa sótt of fast að markverðinum Hilario og vændi hann um ruddaskap.
Í yfirlýsingu frá Everton segir að félaginu þyki Mourinho vera að væna prúðan leikmann um fólskubrögð og þess er farið á leit að hann biðjist afsökunar á orðum sínum.