Mike Newell, stjóri Luton Town í ensku fyrstu deildinni, hefur verið ákærður af enska knattspyrnusambandinu fyrir niðrandi ummæli sín í garð aðstoðardómara eftir leik gegn QPR í byrjun síðasta mánaðar.
Það var sérstakt við leikinn þann 10. nóvember að kona var í hlutverki aðstoðardómara og Newell sagði að það væri glórulaust að kona væri aðstoðardómari í alvöru knattspyrnuleik. Hann sagðist jafnframt sjá það að ummæli sín bæru vott um karlrembu - en bætti því við að hann væri karlremba og hann gæti ekkert að því gert.
Newell var í kjölfarið tekinn inn á teppi hjá stjórn Luton og fékk harða viðvörun, en nú á hann yfir höfði sér sekt og/eða keppnisbann frá aganefnd knattspyrnusambandsins. Hann hefur frest til 21. desember til að svara saka.