Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, hrósaði ungu leikmönnunum sínum í hástert eftir sigurinn gegn Tottenham fyrr í dag. Í fjarveru Thierry Henry, Philippe Senderos og William Gallas þurfti Wenger að stilla upp afar ungu liði sem þjálfarinn segir að hafi staðist allar sínar væntingar.
"Mér fannst við alltaf hafa leikinn í hendi okkar og leikmennirnir sýndu mikinn sigurvilja. Johan Djouriu er 19 ára, Cesc Fabregas sömuleiðis og Gael Clichy er 21 árs. Allt eru þetta frábærir leikmenn sem áttu mjög góðan dag. Ég er að sjálfsögðu ánægður með sigurinn en góð frammistaða liðsins var ekki síður mikilvæg," sagði Wenger.