Viðskipti innlent

Dregur úr væntingum neytenda

Dregið hefur úr tiltrú neytenda síðustu vikurnar ef marka má Væntingavísitölu Gallup fyrir nóvember sem birt var í morgun. Almennt eru neytendur mjög jákvæðir gagnvart efnahagslífinu, en þó eru þeir aðeins fleiri um þessar mundir sem telja að ástandið muni versna en hinir sem telja að það muni batna.

Greiningardeild Glitnis segir að full mikil sveifla í bjartsýnisátt hafi átt sér stað á meðal neytenda í október þegar tiltrú þeirra fór í hæstu hæðir og hefur sú sveifla nú gengið til baka.

Tiltrú neytenda virðist því núna í meira jafnvægi við horfur í efnahagsmálum þar sem útlit er fyrir að verulega hægi á vexti á næsta ári.

Væntingavísitala Gallup mælist nú 118,6 stig og lækkar úr 136,2 stigum í fyrri mánuði. Mest hefur dregið úr væntingum til ástandsins í efnahagslífinu eftir sex mánuði. Mat neytenda á núverandi ástandi er hins vegar nær óbreytt.

Þá telja um 44% neytenda efnahagsástandið gott en 17% telja þeirra telja það slæmt.

Þá segir greiningardeildin í Morgunkorni sínu að lítið sem ekkert atvinnuleysi sé um þessar mundir og endurspegli það að um 56% neytenda telji atvinnumöguleika sína mikla samanborið við að 14% telji þá litla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×