Brasilíski knattspyrnusnillingurinn Ronaldinho hjá Barcelona segist ólmur vilja fá enska landsliðsmanninn Frank Lampard til Katalóníu. Lampard skoraði frábært mark í viðureign Chelsea og Barcelona á Nou Camp fyrir skömmu.
"Frank er frábær leikmaður og ég er mjög ánægður með að hafa fengið að kynnast honum utan vallar sem innan. Hann er vinur minn og mér finnst gaman að sjá hann spila. Það væri sannarlega gaman að sjá hann koma til Barcelona," sagði Ronaldinho í samtali við breska blaðið The Sun. Lampard er samningsbundinn Chelsea til ársins 2009, en hefur verið að læra spænsku í frístundum sínum undanfarið ár.