Ungverska knattspyrnugoðsögnin Ferenc Puskas er látinn, 79 ára að aldri. Puskas fór fyrir gullaldarliði Ungverja um miðja síðustu öld og vann m.a. þrjá Evrópumeistaratitla með Real Madrid. Puskas hafði dvalið á sjúkrahúsi síðustu 6 ár og var með Alzheimers sjúkdóminn.
Puskas skoraði 83 mörk í 84 landsleikjum fyrir Ungverja, en gerðist síðar spænskur ríkisborgari. Hann skoraði alls 512 mörk í 528 leikjum fyrir Real Madrid og þar á meðal skoraði hann 4 mörk í úrslitaleik Evrópukeppninnar á Hamden Park gegn Frankfurt árið 1960. Puskas var um aldamótin kjörinn sjötti besti knattspyrnumaður síðustu aldar.