Björgunarsveitin Ársæll, sem starfar á Seltjarnarnesi og í Reykjavík, vill koma því á framfæri við fólk að binda niður garðhúsgögn, trampólín og allt annað lauslegt sem gæti tekist á loft í veðrinu sem á að ganga yfir í fyrramálið.
Verktakar eru einnig hvattir til þess að huga að svæðum sínum, festa stillasa og annað sem gæti hugsanlega fokið.
Björgunarsveitin er viðbúin og hægt er að ná í hana í gegnum neyðarlínuna ef fólk þarf á henni að halda.
Lögreglan í Reykjavík benti einnig á að fólk þarf að borga skemmdir sem hljótast af eigum þeirra og er fólk þess vegna hvatt til þess að tryggja alla lausahluti í görðum sínum.