Lögregluyfirvöld í Liverpool hafa ákveðið að aðhafast ekki frekar í máli Joey Barton hjá Manchester City sem beraði á sér bakhlutann framan við stuðningsmenn Everton eftir leik liðanna í deildinni á dögunum.
Atvikið vakti skiljanlega mikla reiði meðal stuðningsmanna Everton, en Barton er mjög óvinsæll þeirra á meðal og hefur áður komist í kast við stuðningsmenn liðsins. Hann er sjálfur frá Liverpool.
Enska knattspyrnusambandið hefur málið enn til meðferðar, en hefur enn ekki komist að niðurstöðu í málinu. Atvik þetta náðist allt á mynd, en leikmanninum til varnaðar má segja að skömmu áður en hann sýndi stuðningsmönnum Everton hvað honum fannst um þá, gekk hann til fatlaðs drengs í hjólastól meðal stuðningsmanna City og færði honum treyju sína.