Innlent

Lögreglan gengur hart fram gegn mótmælendum og brýtur jafnvel stjórnarskrá.

Hæstaréttarlögmaðurinn Ragnar Aðalsteinsson segir greinilegt að dagskipun lögreglunnar sé að mótmæli skuli alls ekki líðast.Hann veltir líka fyrir sér hvort andófsmenn séu á skrá lögreglunnar því reglur um þessi málefni séu ekki birtar og erfitt að afla upplýsinga.

Þetta kom fram í máli Ragnars á hádegisfundi lagadeildar Háskólans í Reykjavík sem fjallaði um réttarstöðu mótmælenda. Ragnar segist vita til þess að þeir sem taka þátt í mótmælum verði jafnvel fyrir áföllum eins og atvinnumissi eða fái ekki framgang í störfum.

Ragnar segir að réttarstaða andófsmanna sé betri í dag en áður. Aðspurður um hvort lögreglan sé æstari í garð mótmælenda og aðgerðir hennar harkalegri nú en áður,segir Ragnar að auðvitað sé dæmi um harkalegar aðgerðir lögreglunnar til að mynda frá árinu 1974 en í máli mótmælenda vegna Kárahnjúkavirkjunnar sé alveg á hreinu að framgangur lögreglu hafi stangast á við stjórnarskrá.

Ragnar segir líka mikinn mun á því hvernig tekið er á erlendum andófsmönnum hér landi og vísar þar í meðferð lögreglu á Falun Gong-liðum sem hingað komu til lands. Hann segist vita til þess að lögreglumenn hafi í þeim málum óhlýðnast meðvitað yfirmönnum sínum, þ.e. ráðherrum sem hafi viljað sjá harkalegri framgöngu.

 

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins hélt líka erindi á fundinum og er ósammála staðhæfingum Ragnars. Hann segir að hlutverk lögreglunnar sé skýrt þegar um mótmæli sé um að ræða og andófsmenn séu ekki á skrá lögreglunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×