Innlent

Mikið magn fíkniefna í Norrænu

Fíkniefnahundar fundu yfir tíu kíló af amfetamíni í Norrænu í gær við hefðbundið tollaeftirlit. Tveir Litháar hafa verið úrskurðaðir í fjögurra vikna gæsluvarðhald. Þá voru arabar teknir með fíkniefni innvortis í Leifsstöð.

Efnin fundust í tveimur bílum við tollafgreiðslu í Norrænu eftir að skipið kom til hafnar í gær. Efnin voru vel falin í bílunum en við tolleftirlit voru tveir fíkniefnahundar notaðir. Annar frá Tollstjóranum í Reykjavík og annar frá embætti sýslumannsins á Eskifirði. Tveir Litháar sem komu með Norrænu til landsins voru handteknir og síðan úrskurðaðir í fjögurra vikna gæsluvarðhald í héraðsdómi Austurlands. Talið er líklegt að um amfetamín sé að ræða en unnið er að vigtun og efnagreiningu. Málið hefur verið afhent fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík. Að leitinni í gær komu lögreglumenn frá ríkislögreglustjóra, embættinu á Seyðisfirði, lögreglumaður og tollvörður frá embætti sýslumannsins á Eskifirði, lögreglustjóranum á Keflavíkurflugvelli og tollstjóranum í Reykjavík.

Þá hafa tveir arabar, búsettir hér á landi, verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald eftir að þeir voru gripnir við eftirlit tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli í gær. Upphaflega voru fjórir handteknir og reyndust tveir þeirra vera með kannabisefni innvortis. Er þetta fjórða málið á tæpum tveimur vikum sem tollgæslan kemur upp um þar sem reynt hefur verið að smygla fíkniefnum innvortis. Fyrir skömmu var fjölskyldufaðir tekin með tæpt kíló af hassi og tveir hafa verið teknir með samtals um hálft kíló af kókaíni.

Fangavörðurinn sem handtekinn var fyrir að smygla fíkniefnum inn á Litla Hraun fór alls átta ferðir með fíkniefni inn í fangelsið, hundrað og fimmtíu grömm af hassi og þrjátíu og fimm af amfetamíni. Þetta gerði hann gegn peningagreiðslum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×