Innlent

Framhaldsskólar hefjast eftir sumarleyfi

Framhaldsskólanemar sneru sumir aftur í skólann í dag, sumir hverjir með fulla vasa fjár eftir sumarið. Þeim er engu að síður ráðlagt að sýna ráðdeild enda langur vetur fram undan.

Framhaldsskólarnir taka nú til starfa hver af öðrum og því streyma þúsundir ungmenna af vinnumarkaði, tilbúnar að takast á við veturinn. Hjá þeim sem eru að hefja nám í framhaldsskólum blasir við nýr raunveruleiki þar sem skyndilega þarf að fara að greiða fyrir námsbækurnar. Þau voru mörg hugsandi andlitin í Griffli í dag sem renndu yfir langa bókalista og ljóst er að hluti sumarhýrunnar hverfur á næstu dögum í bókakost.

Í Griffli voru fulltrúar SPRON og þeir veittu þeim sem vildu fjármálaráðgjöf enda oft erfitt að fóta sig með nýtt greiðslukort í höndunum. Að sögn Ólafs Haraldssonar, framkvæmdastjóra SPRON, er alltaf eitthvað um ungmenni í fjárhagsvandræðum en mikilvægt sé að læra að spara snemma.

Þeir unglingar sem fréttastofa ræddi við sögðu flestir að bókaútgjöld sín væru talsverð en misjafnt var hversu mikið þau komu við pyngjuna.

Námsmenn - og aðrir - hafa ýmsar leiðir til að spara. Þannig er hægt að spara sér seðilgjöld banka með því að afþakka yfirlit og reikninga í pósti. Slík seðilgjöld geta auðveldlega numið átta til níu þúsund krónum á ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×