Viðskipti innlent

Hagnaður Sparisjóðabankans aldrei meiri

Hagnaður Sparisjóðabanka Íslands á fyrri helmingi ársins nam rúmum 1,7 milljarði króna sem er 129,9 prósenta aukning á milli ára og hefur  hagnaðurinn aldrei verið meiri á sex mánaða tímabili. Hagnaðurinn svarar til 50,8 prósenta arðsemi eigin fjár miðað við heilt ár og er það með því hæsta sem þekkist meðal innlendra og erlendra fjármálafyrirtækja.

Hagnaður bankans á sama tíma fyrir ári nam 756,2 milljónum króna.

Í tilkynningu bankans til Kauphallar Íslands kemur fram, að samfelldur mikill hagnaður í nokkur misseri hafi styrkt stöðu bankans verulega og sé hann því vel í stakk búinn að hefja kröftuga sókn til vaxtar og áframhaldandi arðsemi. Verði áform þar að lútandi kynnt síðar á árinu.

Í tilkynningunni kemur fram að hreinar vaxtatekjur bankans á tímabilinu hafi numið 603,2 milljónum króna á fyrri hluta ár sem er 53,1 prósenti meira en á sama tíma í fyrra.  Nægja vaxtatekjurnar til þess að standa undir öllum rekstrarkostnaði bankans ásamt virðisrýrnun útlána og er það viðsnúningur frá því sem áður var. Þetta bendir til sífellt meiri styrkleika í hefðbundinni útlánastarfsemi bankans, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Útlán hækkuðu úr 47,4 milljörðum í árslok 2005 í 58,2 milljarða krónur í júnílok og nemur hækkunin 22,7 prósentum. Þar af hækkuðu útlána bankans á viðskiptamenn sem ekki eru lánastofnanir úr 20,9 milljörðum króna í 26,5 milljarða.

Í tilkynningunni segir ennfremur að bankinn hafi smám saman aukið útlán til erlendra aðila á síðustu misserum og sjái hann fjölmörg sóknarfæri á því sviði. Ráðist vaxtarmöguleikar bankans að verulegu leyti af aðgengi bankans að erlendu lánsfjármagni en aðstæður á erlendum lánsfjármörkuðum hafa verið íslenskum bönkum erfiðar frá því í febrúar á þessu ári.   Þrátt fyrir það hafi bankinn tekið 100 milljónir evra að láni hjá hópi evrópskra banka í maí. Leysti lántakan endurfjármögnunarþörf bankans fram á mitt næsta ár. Bankinn hefur að undanförnu kannað ýmsa nýja lántökumöguleika og virðist sem viðhorf erlendra lánveitenda sé að verða jákvæðara í garð íslenskra banka.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×