Viðskipti innlent

Hagnaður Kaupþings 31,8 milljarðar króna

KB banki
KB banki

Hagnaður Kaupþings banka nam 13,0 milljörðum króna á öðrum ársfjóðungi en hagnaður bankans á fyrstu sex mánuðum ársins nemur 31,8 milljörðum króna, sem er 7 milljörðum krónum meira en á sama tíma í fyrra. Hagnaður bankans á öðrum ársfjórðungi er hins vegar 700 milljónum krónum minni en fyrir ári.

Glitnir banki spáði að hagnaður Kaupþings á öðrum ársfjórðungi næmi rúmum rúmum 10,9 milljörðum króna en Landsbankinn spáði rúmum 9 milljarða króna hagnaði. 

Hagnaður á hlut á fyrstu sex mánuðum ársins var 47,9 krónur sem er 10 krónu hækkun á milli ára. Hagnaður á hlut á öðrum ársfjórðungi var 19,6 krónur en það er 1,30 krónum minna en fyrir ári.

Í tilkynningu til Kauphallar Íslands kemur fram að arðsemi eigin fjár á fyrri helmingi ársins hafi verið 36,2 prósent á ársgrundvelli.

Þá námu hreinar vaxtatekjur bankans 24,9 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins og er það 81,6 prósenta aukning á milli ára.

Gengishagnaður nam 10,9 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins og er það 41,2 prósentum minna en á sama tíma í fyrra.

Rekstrartekjur námu 66,5 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins en það er 43,3 prósenta aukning á milli ára.

Heildareignir Kaupþings námu 3.552 milljörðum króna í júnílok og er það 11 prósenta aukning á föstu gengi frá áramótum en um 39,8 prósenta aukning í krónum.

Þá nam arðsemi eigin fjár FIH, dótturfélags Kaupþings í Danmörku, 20,9 prósentum á ársgrundvelli á fyrri helmingi ársins.

Þá kemur fram í tilkynningunni að Kaupþing hafi selt 24 prósenta eignarhlut sinn í VÍS eignarhaldsfélagi hf. til fjárfestingarfélagsins Exista í maí síðastliðnum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×