Viðskipti innlent

Spáir 8,6 prósenta verðbólgu í ágúst

KB banki.
KB banki.

Greiningardeild KB banka spáir 0,4 prósenta hækkun vísitölu neysluverðs í ágúst. Gangi spáin eftir fer 12 mánaða verðbólga úr 8,4 prósentum í 8,6 prósent. Útsöluáhrif draga verulega úr hækkun vísitölunnar og er búist við að útsölur hafi um 0,3 til 0,4 prósenta áhrif á vísitölu neysluverðs til lækkunar.

Greiningardeildin gerir ráð fyrir að umfang útsala verði svipað nú og á seinasta ári eða að verðlækkun fatnaðar verði um 6 prósent. Þá eru víða útsölur á raftækjum og öðrum varanlegum neysluvörum. Án útsöluáhrifa væri hækkun vísitölunnar 0,7 til 0,8 prósent en flest bendir til þess að mesta verðbólguskotið sé gengið yfir.

Deildin segir ennfremur að kaflaskil hafi orðið á fasteignamarkaði en verulega hafi dregið úr spennu á markaðnum. Gert er ráð fyrir óverulegri hækkun fasteignaverðs en fjármagnskostnaðar hefur hækkað í mánuðinum sem leiðir til hækkunar á fasteignalið vísitölunnar. Ástæða þess er að fasteignaliðnum er ætlað að endurspegla notagildi og rekstrarkostnað við húsnæðiseign, að sögn greiningardeildar KB banka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×