Viðskipti innlent

Aðeins minni síldarkvóti í ár

Mynd/Elma
Sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að hlutdeild íslenskra skipa í veiðum á norsk-íslensku síldinni verði 154 þús. tonn í ár. Það er lítil breyting frá árinu 2005, eða lækkun um 2,5 prósent. Til samanburðar var kvótinn árið 2004 128 þús. tonn.

Greiningardeild Glitnis segir að miðað við eldri samning aðildarríkja um úthlutun á kvóta hefði hlutdeild Íslendinga (15,5% af heild) átt að vera 114 þús. tonn á þessu ári. Hafi ráðherra hins vegar ákveðið að auka hlutdeildina hlutfallslega jafn mikið og Norðmenn höfðu áður gert, eða um 35%. Vegna ágreinings Íslendinga og Norðmanna um hlutdeild í norsk-íslensku síldinni er ljóst að kvóti þjóðanna er talsvert umfram ráðgjöf frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu sem gæti haft slæmar afleiðingar fyrir stofninn til lengri tíma litið.

HB Grandi á mestan kvóta af norsk-íslensku síldinni, eða 14%, og fær því tæp 22 þús. tonn úthlutuð í ár. Samherji kemur næst með ríflega 10% af heildinni.

Reiknað er með að aflaverðmæti norsk-íslensku síldarinnar geti orðið 3-4 milljarðar króna í ár.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×