Innlent

Bankarnir lánuðu stjórnendum 5.5 milljarða 2004

Valgerður Sverrisdóttir, viðskiptaráðherra.
Valgerður Sverrisdóttir, viðskiptaráðherra. MYND/Valgarður Gíslason

Stjórnarmenn og æðstu stjórnendur íslensku viðskiptabankanna fengu samtals 5.5 milljarða að láni frá bönkunum árið 2004 og 2.7 milljarða árið þar á undan.

Þetta kemur fram í svari viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar. Þar er vísað til ársreikningar bankanna þar sem segir að Íslandsbanki hafi lánað stjórnendum sínum samtals rúmlega 1.2 milljarð króna árið 2003 og rúma 3.2 milljarða 2004.

Þá hafi KB-banki lánað stjórnendum rúmlega 1.3 milljarða króna 2003 og tæpa 2 milljarða ári síðar. Landsbankinn var ekki eins stórtækur í lánveitingum til sinna stjórnenda og lét þá fá samtals 210 milljónir árið 2003 og 252 milljónir 2004.

Jóhanna spurði einnig hvort bankarnir hefðu veitt stjórnendum sínum óvenjuleg lán sem geti talist verðmótandi og beri að tilkynna hverju sinni samkvæmt reglum Kauphallarinnar.

Í svari ráðherra segir að fram komi í ársreikningum að lánskjör séu hliðstæð við þau sem gerist í sambærilegum lánum til annarra viðskiptamannabankanna. Kauphöllin geri ekki athugasemdir við upplýsingagjöfina og telji hana samrýmast gildandi reglum.

Ennfremur kemur fram í svarinu að Kauphöllinni hafi ekki borist neinar tilkynningar, sem taldar voru verðmótandi, um óvenjuleg lán bankanna til stjórnenda sinna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×