Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður og varaformaður Frjálslynda flokksins, er farinn út á sjó að leita að loðnu. Hann fór í loðnuleit sem afleysingaháseti á nótaskipinu Víkingi AK 100 frá Akranesi í gær, skömmu eftir að skipinu var rennt úr slippnum í Reykjavík.
Magnús Þór segir frá því á vef sínum að bróðir hans, sem er stýrimaður á Víkingi, hafi boðið honum að koma með einn túr og að slíkum forréttindum sé erfitt að jafna. Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem Magnús Þór fer í loðnuleit. Hann segir frá því á vefnum að hann hafi farið nokkra leiðangra með hafrannsóknaskipunum Bjarna Sæmundssyni og Árna Friðrikssyni eldri auk þess að sjá um loðnuleit Norðmanna við Jan Mayen í tvö sumur á árum áður.