Viðskipti innlent

Eimskip tekur við rekstri á Herjólfi

Eimskip hefur tekið við rekstri Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs frá og með áramótum. Við þá breytingu hefur nýtt bókunar- og greiðslukerfi verið tekið í notkun ásamt nýju afsláttarfyrirkomulagi auk þess sem ný siglingaáætlun hefur verið tekin í gagnið.

Frá og með fyrstu ferð ársins 2. janúar geta farþegar Herjólfs í fyrsta skipti bókað og greitt fyrir farmiða í gegnum nýja heimasíðu Herjólfs, www.herjolfur.is. Þar verður hægt að bóka og borga fyrir farmiða, svefnpláss og pláss fyrir einkabíla um borð í ferjunni. Í framtíðinni verður einnig hægt að kaupa afsláttarmiða í gegnum sama kerfi, en fyrst um sinn fer sala afsláttarmiða fram í afgreiðslum Herjólfs í Vestmannaeyjum og Þorlákshöfn.

Afgreiðslustaðir Herjólfs verða þeir sömu og áður að undanskildum afgreiðslustað í Reykjavík, en framvegis verður afgreiðsla Herjólfs í Reykjavík staðsett í Vöruhótelinu, Sundabakka 2, 104 Reykjavík.

Siglingaáætlun Herjólfs hefur verið bætt til muna með því að fjölga ferðum frá því sem áður var. Herjólfur mun sigla tvær ferðir fram og tilbaka á hverjum degi allt árið. Þó er ferðum fækkað á vissum hátíðisdögum. Nýja siglingaáætlunin gerir þannig ráð fyrir um það bil 720 ferðum fram og tilbaka á ári.

Um áramót verður tekið upp svokallað afsláttarkerfi með sama greiðslufyrirkomulagi og við kaup á einstökum ferðum. Kaupa þarf afsláttarkort fyrir að lágmarki 14.400 kr. og eignast kaupandi þá inneign sem því nemur. Þegar viðskiptavinur á afsláttarkort með inneign fær hann afsláttarkjör sem nema 40% afslætti af almennu verði.

Á næstunni mun Eimskip standa fyrir breytingum á aðstöðu fyrir farþega, á afgreiðslustöðum jafnt sem um borð í Herjólfi sjálfum. Má þar meðal annars nefna bætta aðstöðu fyrir börn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×