Innlent

Var drekinn á Bolafjalli

haraldur Ringsted steingrímsson
Mjög fínt að vera á Bolungarvík.
haraldur Ringsted steingrímsson Mjög fínt að vera á Bolungarvík. MYND/ylfa mist

„Jú, þetta er búið að vera yfirvofandi lengi, eða síðan það var skorið niður í fyrra,“ segir Haraldur Ringsted Steingrímsson, einn þeirra sem var nýlega sagt upp á ratsjárstöðinni á Bolafjalli. „Þetta kom svo sem engum á óvart en maður vonaði að þetta yrði ekki alveg strax. Ég verð að vinna út maí og er ekkert búinn að ákveða hvað tekur við þá.“ Haraldur býr með eiginkonu sinni og þremur börnum í Bolungarvík. „Við erum nýbúin að kaupa hús og ætlum að vera hér áfram. Það er mjög fínt að vera á Bolungarvík.“

Haraldur hefur séð um fyrirbyggjandi viðhald á radar og búnaði stöðvarinnar en nú á að stjórna viðhaldinu úr bænum og líklega senda viðgerðarteymi vestur einu sinni í mánuði. Bæjarráð Bolungarvíkur hefur lýst yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun Ratsjárstofnunar enda hverfa um 5 prósent útsvars­tekna Bolungarvíkurkaupstaðar með þessum uppsögnum.

Haraldur er trommari og er nýbyrjaður í hljómsveit með bæjarstjóranum Grími Atlasyni, Lýði Árnasyni lækni á Flateyri og Hermanni Ása. Bandið heitir Grjóthrun og hélt nýlega sína fyrstu tónleika í Einarshúsi. „Við spiluðum bara frumsamin rokklög og okkur var vel tekið. Nú er bara eins gott að Grjóthrun meiki"ða og verði næsta útflutningsvara Bolungarvíkur fyrst ratsjárstöðin er á förum,“ segir Haraldur, nokkuð brattur bara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×