Viðskipti innlent

SAS sýnir Icelandair áhuga

Flugrisinn SAS hefur samkvæmt heimildum Fréttablaðsins sýnt áhuga á að kanna kaup á Icelandair. Forsvarsmenn SAS hafa sett sig í samband við FL Group og lýst áhuga á að skoða kaup á félaginu.

FL Group og Kaupþing eiga í viðræðum um kaup bankans á félaginu. Kjölfestan í kaupum Kaupþings er Ólafur Ólafsson, eigandi Samskipa. Samkvæmt heimildum ætla menn sér nokkra daga enn í að láta reyna á um hvort niðurstaða fæst úr þeim viðræðum.

Hópur fyrrverandi eigenda Vátryggingafélags Íslands sem skoðaði kaup í samvinnu við Glitni heldur að sér höndum og er talið nánast útilokað að þráðurinn verði tekinn upp aftur.

Talið er að upphæðirnar sem rætt er um við sölu félagsins séu á bilinu 42 til 46 milljarðar fyrir rekstrarvirði félagsins, sem er eigið fé að viðbættum vaxtaberandi skuldum. Ef miðað er við eðlilega skuldsetningu er eigið fé metið á 24 til 28 milljarða. Eign FL Group í Icelandair er hins vegar bókfærð á átta milljarða. Söluhagnaður næmi því 16 til 20 milljörðum króna.

Aðilar samningaviðræðnanna vörðust allra frétta um gang mála, en búist er við að niðurstaða viðræðna liggi fyrir eftir nokkra daga.

Til stóð að skrá félagið á markað en sú ákvörðun bíður líklega nýrra eigenda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×