Viðskipti innlent

Jarðboranir tryggja sér nýjan liðsauka

Óðinn er nýjasti borinn í flota jarðborana og heldur þeim titli þangað til hátækniborinn kemur til landsins og eykur afkastagetu Jarðborana til muna.
Óðinn er nýjasti borinn í flota jarðborana og heldur þeim titli þangað til hátækniborinn kemur til landsins og eykur afkastagetu Jarðborana til muna.

Jarðboranir hafa gengið frá samningum um kaup á nýjum hátæknibor sem verður afhentur næsta sumar. Verður hann sá öflugasti í tækjaflota félagsins og fær um að bora niður á allt að rúmlega fimm kílómetra dýpi.

Verður hann jafnframt útfærður samkvæmt óskum sérfræðinga Jarðborana til að tryggja að hann henti sem best íslenskum aðstæðum.

Í fréttatilkynningu frá félaginu kemur fram að nýi borinn muni auka afkastagetu Jarðborana hér heima til muna, auk þess sem fyrirtækinu verður kleift að taka ný skref í útrás. Þar komi bæði til tæknileg fjölhæfni borsins og aukin afkastageta borflota Jarðborana í heild, ekki síst við þær aðstæður þegar verkefni hér heima eru í sögulegu hámarki, samtímis því sem sinna þarf áhugaverðum verkefnum erlendis. Í tilkynningunni er haft eftir Bent S. Einarssyni, forstjóra félagsins, að Jarðboranir og dótturfyrirtækið Iceland Drilling séu að að skoða frekari vaxtamöguleika erlendis og er þá litið til fleiri tegunda verkefna en borunar eftir jarðhita.

Kaupverð nýja borsins er um 1,4 milljarðar íslenskra króna. Fyrirtækið Drillmec í borginni Piacenza á Ítalíu mun hanna og framleiða borinn en fyrir eiga Jarðboranir fjóra bora frá sama framleiðanda: Óðin, Geysi, Sleipni og Sögu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×