Innlent

Slæmri stöðu Strætó leynt

„Fyrrverandi stjórnarformaður Strætó, Björk Vilhelmsdóttir, þá borgarfulltrúi R-listans, kaus að halda upplýsingum um alvarlega fjárhagsstöðu fyrirtækisins frá borgarráði fram yfir sveitarstjórnarkosningar í maí, líklega til að forðast óþægilega umræðu,“

segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Skýrslan var lögð fram á stjórnarfundi Strætó 16. mars síðast­liðinn en sveitarstjórnarkosning­arnar fóru fram seinni hluta maímánaðar. Skýrslan hefur ekki enn verið gerð opinber.

Björk Vilhelmsdóttir segir að engu hafi verið leynt og að þetta séu ótrúlegar dylgjur frá fulltrúa meirihlutans í borgarstjórn. „Það var ákveðið í stjórn Strætó bs. að kynna fjárhagsstöðuna fyrst á eigendafundi og það var vilji til þess að gera þetta ekki að fjölmiðlaumræðu sem oft gerist þegar mál eru gerð opinber í borgarráði.“

„Þetta er svört skýrsla og þar kemur fram að fjárhagurinn er í rúst,“ segir Kjartan. Frávikið í nýsamþykktri fjárhagsáætlun ársins 2006 hafi verið svo mikið að Björk hefði þá þegar átt að gera ráðstafanir til að upplýsa borgarráð um þessa alvarlegu stöðu. Ljóst sé að hallarekstur fyrirtækisins lendi fyrst og fremst á borgarsjóði, sem greiði sjötíu prósent af opinberum framlögum til þess.

„Þegar ný stjórn tók við fyrirtækinu í júní kom í ljós að tap fyrirtækisins hefði að óbreyttu vart orðið undir þrjú hundruð milljónum á árinu, umfram þær 1.595 milljónir sem eigendur höfðu lagt fram til rekstrarins,“ segir Kjartan.

Björk neitar því að hún hafi borið upplýsingaskyldu gagnvart borgarráði. Stjórnin fari algjörlega með ábyrgðina. „Ég upplýsti meirihluta borgarstjórnar um að meira fjármagn þyrfti og við fórum vel yfir hvernig hægt væri að minnka rekstrarkostnaðinn. En það var ekki vilji hjá borginni að minnka þjónustuna, því við trúðum á að nýtt leiðakerfi myndi skila sér í því að efla almenningssamgöngur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×