Innlent

Vetrarkvíði hjá jarðverktökum

grafið fyrir nýjum vegi Jarðvinnuverktakar hafa nóg að gera þessar vikurnar en horfa fram á verkefnaskort eftir áramót.
grafið fyrir nýjum vegi Jarðvinnuverktakar hafa nóg að gera þessar vikurnar en horfa fram á verkefnaskort eftir áramót.

Framkvæmdir Jarðvinnuverktakar eru uggandi um framtíð sína því engin stór verkefni í jarðverktöku á vegum hins opinbera eru í bígerð. Öll útboð á sviði vegagerðar voru sett á ís í sumar og var það liður í aðgerðum stjórnvalda til að slá á verðbólgu.

Mörgum stórum verkefnum lýkur fyrripart vetrar eða um og upp úr áramótum og svo er fátt framundan, segir Árni Jóhannsson hjá Samtökum iðnaðarins.

Þetta er í fyrsta sinn í nokkur ár sem óvissa er meðal jarðvinnuverktaka en undanfarin ár hafa þeir haft vissu fyrir mörgum stórum verkefnum. Árni segir vetrarkvíða gæta meðal jarðverktaka.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar miðuðust við að efna ekki til útboða en áfram er unnið að hönnun og undirbúningi verka. Enginn veit hins vegar hvenær þau verða boðin út. Við skiljum þessi sjónarmið og höfum fengið vissu fyrir að undirbúningi er haldið áfram. Það er því ekki spurning hvort, heldur hvenær verður farið af stað, segir Árni.

Nú um stundir hafa allir jarðvinnuverktakar nóg að gera, enda áhersla lögð á að ljúka mörgum verkum fyrir veturinn. Árni segir miklar breytingar hafa orðið í greininni, fyrirtækin séu orðin miklu stærri en þau voru og þoli því litla bið eftir nýjum verkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×