Innlent

Áhorfandi slasaðist í stúkunni

Íslenskur áhorfandi slasaðist á landsleik Íslendinga og Dana í gær, þegar hann féll í tröppum í norðurenda nýju áhorfendastúkunnar á leið út eftir leikinn.

Áhorfandinn skall harkalega með höfuðið í tröppurnar og fékk skurð á höfuð sem blæddi mikið úr og hugsanlega heilahristing.

Sjúkraflutningamenn frá slökkviliðinu voru á svæðinu og var áhorfandinn fluttur á slysadeild Landspítalans til aðhlynningar. Grunur er um að ölvun hafi verið með í spilinu, að sögn slökkviliðsins.

Þetta er ekki fyrsta óhappið sem á sér stað í þessari stúku, sem er minna en mánaðargömul. Hún var vígð 15. ágúst síðastliðinn þegar setið var í henni í fyrsta skipti á landsleik Íslendinga og Spánverja. Meðan á leiknum stóð hrundu nokkrar sætaraðir en sætin höfðu verið fest rétt áður en flautað var til leiksins.

Framkvæmd við nýju stúkuna fól í sér að gamla stúkan var stækkuð til norðurs og suðurs og sætum á vellinum þannig fjölgað í tíu þúsund.

Danirnir sigruðu leikinn 2-0 og skoruðu fyrsta markið eftir aðeins fjögurra mínútna leik. Sló það Íslendingana í fyrstu út af laginu. Þó sköpuðust nokkur góð færi þangað til seinna markið kom.

Um leið og flautað var til leiksloka strunsaði fyrirliði íslenska landsliðsins, Eiður Smári Guðjohnsen, út af vellinum og inn í búningsklefa. Flestir aðrir leikmenn liðsins klöppuðu fyrir áhorfendum sem mættu á völlinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×