Innlent

Flytja út spilliefni

Frá svæði Hringrásar Mikið magn PCB efnis hefur verið geymt á svæði fyrirtækis­ins en verður flutt til Þýskalands á morgun.
Frá svæði Hringrásar Mikið magn PCB efnis hefur verið geymt á svæði fyrirtækis­ins en verður flutt til Þýskalands á morgun. MYND/Stefán

Síðustu sekkirnir með PCB menguðum jarðvegi verða sendir á morgun með gámum til Þýskalands til urðunar. Eins og greint var frá í Fréttablaðinu 10. maí á þessu ári hafa meira en hundrað tonn af PCB menguðum jarðvegi verið geymd á starfssvæði Hringrásar í Klettagörðum frá því árið 2001, en engin spilliefnamóttaka er hér á landi sem getur tekið á móti PCB menguðum jarðvegi.

Spilliefnin þarf að flytja úr landi til urðunar og hafa efnin verið send með skipum Atlantsskipa úr landi.

Lúðvík Gústafsson, deildarstjóri mengunarvarna hjá umhverfissviði Reykjavíkurborgar, segir orðið brýnt að koma upp spilliefnamóttöku hér á landi sem uppfyllir alþjóðleg skilyrði. Þetta var umtalsvert magn sem þurfti að urða, í þessu tiltekna tilviki. Þar sem engin spilliefnamóttaka er hér á landi þá þurfa fyrirtæki að kosta töluverðu til svo að hægt sé að urða spilliefni erlendis. Það þarf að koma upp slíkum stað í nánustu framtíð.

PCB eyðist hægt úr jarðveginum og veldur skaða ef það kemst út í lífríkið í miklu magni. Ítarlegar rannsóknir hafa farið fram víða um heim á tengslum milli PCB og ýmissa sjúkdóma í dýrum og mönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×