Innlent

Áhrifin eru enn óljós

Stefán Úlfarsson
Stefán Úlfarsson MYND/vilhelm

Fjármálaráðuneytið telur að áhrif samkomulagsins sem gert var á vinnumarkaði í sumar séu að koma fram í mælingum og séu í samræmi við áætlanir. Markmið samkomulagsins var að eyða óvissu á vinnumarkaði og leggja grunn að hjöðnun verðbólgu.

Í Vefriti fjármálaráðuneytisins, sem kom út í lok ágúst, kemur fram að lauslegt mat á vinnumarkaði sýni að laun hafi hækkað um 2,5 prósent og að meiri launahækkanir eigi eftir að koma fram á næstu tveimur mánuðum.

Samtals er búist við að heildaráhrifin nemi fjórum prósentum.

Stefán Úlfarsson, hagfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands, segir að mat fjármálaráðuneytisins á áhrifunum sé svipað og ASÍ hafi gert ráð fyrir.

"Þetta kemur okkur ekki á óvart en það verður að líða lengri tími þar til við getum sagt til um það hvort þetta samkomulag hefur náð tilætluðum árangri eða ekki," segir hann.

ASÍ gerir ráð fyrir að íslenskt efnahagslíf sé í toppi nú hvað verðbólguna varðar en draga fari úr verðbólgu nálægt jólum.

"Eftir þrjá til fjóra mánuði verður svo hægt að segja til um hvaða áhrif samkomulagið á vinnumarkaði hefur haft."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×