Viðskipti innlent

Hreinn Jakobsson tekur við ANZA

Hreinn Jakobsson
Hreinn Jakobsson

Hreinn Jakobsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri ANZA hf. í stað Guðna B. Guðnasonar sem lét af störfum núna um mánaðamótin.

Hreinn er viðskiptafræðingur að mennt og hefur víðtæka reynslu bæði í upplýsingatækni og fjármálastarfsemi.

Hreinn hefur síðustu níu árin verið forstjóri Skýrr hf., allt frá einkavæðingu fyrirtækisins árið 1997 og á þar að baki farsælan feril. Eftir eigendaskipti á fyrirtækinu í sumar varð þó ljóst að hann ætti ekki samleið með nýrri stjórn og hvarf hann því frá Skýrr.

Áður starfaði Hreinn hjá Iðnaðarbanka Íslands hf. og Iðnlánasjóði í fimm ár. Að því búnu réð hann sig til Þróunarfélags Íslands hf. og starfaði þar í alls átta ár, fjögur sem framkvæmdastjóri.

Þá hefur Hreinn setið í stjórnum fjölda fyrirtækja bæði í upplýsingatækni og öðrum atvinnugreinum, meðal annars í stjórn Bakkavarar síðastliðin sex ár.

Eigendur ANZA ætla að efla fyrirtækið til framtíðar og horfa til útrásar og er ráðning Hreins Jakobssonar sögð liður í þeirri stefnu. Fyrirtækið var stofnað árið 1997 og hefur frá upphafi verið með öflugustu upplýsingafyrirtækjum landsins.

Starfsmenn ANZA eru rúmlega 85 og ársvelta áætluð um 900 milljónir króna. Aðaleigandi fyrirtækisins er Síminn, en nokkur fyrirtæki og starfsmenn eiga í því smærri hlut.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×