Viðskipti innlent

Síminn vill ekki í fjölmiðla

Exista leitar að tækifærum til að útvíkka starfsemi sína í Bretlandi og meginlandi Evrópu og beinast þar sjónir manna að vátryggingarekstri og eignaleigustarfsemi, að sögn Lýðs Guðmundssonar, starfandi stjórnarformanns félagsins, sem er í viðtali við Markaðinn í dag. Félagið deilir skrifstofu með Bakkavör og Símanum í Lundúnum og leitar að yfirtökutækifærum, bæði í skráðum og óskráðum félögum.

Skráning Exista í næstu viku er stærsta nýskráning félags í Kauphöll Íslands en félagið er metið á allt að 233 milljarða króna. Með henni slá menn tvær flugur í einu höggi: losa um krosseignarhald milli Exista og KB banka og búa til mikil verðmæti fyrir eigendur.

Exista er stærsti hluthafinn í Símanum sem verður settur á markað í lok næsta árs. Horfa eigendur og stjórnendur Símans til kaupa á erlendum símafyrirtækjum og færa reksturinn í sama form og Síminn er.

Miklar hræringar og breytingar hafa verið á innlendum fjölmiðlamarkaði. Lýður hafnar öllum kenningum um sókn Símans inn á innlendan fjölmiðlamarkað í samfloti við önnur fyrirtæki. Síminn vill einbeita sér að dreifingu efnis, sem er sérsvið fyrirtækisins en ekki rekstur fjölmiðlafyrirtækja. Allar sögur um það að Morgunblaðið, Síminn og Skjár einn eigi að verða ein fjölmiðlasamsteypa eru algjörlega úr lausu lofti gripnar. Þær hugmyndir hafa aldrei verið ræddar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×