Innlent

Búast við um 700 milljónum

Landsbanki Íslands Lífeyrissjóður hefur tekið málsókn á hendur Landsbanka Íslands úr dómi í kjölfar samkomulags.
Landsbanki Íslands Lífeyrissjóður hefur tekið málsókn á hendur Landsbanka Íslands úr dómi í kjölfar samkomulags. MYND/Hari

"Samkvæmt síðasta milliuppgjöri bankans höfum við lagt til hliðar 700 milljónir króna til að mæta mögulegum skuldbindingum vegna þessa máls. Það er vísbending um hvað við búumst við að verði niðurstaðan. Það er ennþá verið að semja um ákveðin atriði og þetta er viljayfirlýsing um að klára þetta mál en ekki bindandi samkomulag.

 Málið er enn á viðræðustigi," segir Gunnar Viðar, forstöðumaður lögfræðiráðgjafar Landsbanka Íslands, um viljayfirlýsingu milli bankans og stjórnar Lífeyrissjóðs bankamanna vegna meintrar bakábyrgðar lífeyrisskuldbindinga í hlutfalladeild lífeyrissjóðsins.

Lífeyrissjóðurinn höfðaði mál gegn bankanum fyrir ári og átti að taka málið fyrir í september næstkomandi. Málsóknin hefur verið tekin úr dómi en ýtrustu dómkröfur sjóðsins námu 2,6 milljörðum króna vegna árabilsins 1998 til 2004 eða síðan Lífeyrissjóður bankamanna leysti af hólmi Eftirlaunasjóð Landsbankans í aðdraganda þess að ríkisbönkunum var breytt í hlutafélög.

Friðbert Traustason, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bankamanna, hefur ekki viljað tjá sig um efni viljayfirlýsingarinnar en telur að með samkomulaginu sé hagur félaga í hlutfalladeild lífeyrissjóðsins tryggður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×