Innlent

Bátar kraftmeiri en áður var

Þyrla Gæslunnar Útköll vegna báta sem hverfa út fyrir drægni sjálfvirkrar tilkynningarskyldu hafa aukist talsvert.
Þyrla Gæslunnar Útköll vegna báta sem hverfa út fyrir drægni sjálfvirkrar tilkynningarskyldu hafa aukist talsvert. MYND/Vilhelm

Margir íslenskir smábátar eru orðnir það kraftmiklir og hraðskreiðir að æ algengara er að þeir fari út fyrir drægni sjálfvirkrar tilkynningarskyldu.

Þetta staðfesta starfsmenn Landhelgisgæslunnar en í fyrrinótt var þyrla send af stað til leitar að bát sem farið hafði út úr sjálfvirku tilkynningarskyldunni og ekki náðist samband við með öðrum hætti.

Var nálægum bátum einnig gert viðvart og hófu margir þeirra leit strax í kjölfarið. Náði einn slíkur loks sambandi símleiðis við umræddan bát skömmu síðar og var leit þá hætt enda ekkert að um borð.

Í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fengust þær upplýsingar að sökum þess hve margir smærri bátar eru orðnir kraftmiklir og þar af leiðandi mun hraðskreiðari en áður var, sé mun algengara nú en áður að bátar fari lengra á haf út en drægni sjálfvirkra sendistöðva þeirra dregur.

Fer drægnin jafnan eftir hversu ofarlega hægt er að staðsetja slíkan búnað og er það ekki hátt á flestum smærri bátum. Ekki fengust upplýsingar um hvað slík útköll hafa kostað Landhelgisgæsluna en henni ber skylda til að hefja leit strax náist ekki samband við báta eða skip við landið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×