Viðskipti innlent

Felldur úr stjórn sparisjóðsins

Magnús Kristinsson náði ekki endurkjöri í stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja.
Magnús Kristinsson náði ekki endurkjöri í stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja.

Magnús Kristinsson, útgerðarmaður og einn stærsti hluthafinn í Straumi-Burðarási, náði ekki endurkjöri í stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja á aðalfundi sparisjóðsins á dögunum. Gísli G. Guðlaugsson, Skæringur Georgsson og Þór Í. Vilhjálmsson voru hins vegar kosnir.

Magnús, sem komst inn í stjórn sparisjóðsins fyrir ári síðan með því að fella Skæring með eins atkvæðis mun, fékk 29 atkvæði af 68 sem dugði ekki til. Fimm stjórnarmenn sitja í stjórn sparisjóðsins: þrír kjörnir á stofnfjáreigendafundi en tveir tilnefndir af bæjaryfirvöldum.

Stofnfjáreigendur eru 70 talsins og skiptist stofnfé, að upphæð tvær milljónir króna, í jafna hluti. Magnús hefur, samkvæmt heimildum, lýst sig fylgjandi því að opnað verði fyrir viðskipti með stofnfé sparisjóðsins. Í ljósi mikilla viðskipta með stofnfé í stærstu sparisjóðunum er talið fullvíst að stofnfjáreigendur í Vestmannaeyjum fengju mun meira í sínar hendur en þeir lögðu inn ef þeir myndu selja sitt stofnfé.

Þær breytingar sem urðu á stjórn sparisjóðsins á aðalfundi munu þó ekki tengjast hugmyndum Magnúsar um stofnfjárviðskipti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×