Ráðið í starf útvarpsstjóra 22. júlí 2005 00:01 Líklegt er að einhverjir, sem höfðu hugsað sér að sækja um starf útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins, hafi hætt við þá fyrirætlan þegar sá orðrómur fór á kreik síðdegis á miðvikudaginn að búið væri að ráða í stöðuna bak við tjöldin þótt umsóknarfrestur væri ekki liðinn. Sagt var að Páli Magnússyni, sem þann dag gekk ósáttur frá starfi sjónvarps- og fréttastjóra Stöðvar tvö, hefði verið lofað embættið. Ekki þarf að koma á óvart að menn séu tilbúnir að leggja trúnað á sögusögn af þessu tagi. Það hefur verið regla fremur en undantekning að þannig sé staðið að verki hér á landi þegar ráðið er í eftirsóttar stöður hjá ríki og sveitarfélögum, að fyrst sé fundinn kandídatinn og síðan sé starfið auglýst. Þótt engar hæfniskröfur séu gerðar til útvarpsstjóra í lögum um Ríkisútvarpið eða auglýsingu menntamálaráðuneytisins verður að ætla að almenningsálitið krefjist þess að sá sem gegnir starfinu hafi víðtæka þekkingu og reynslu á sviði fjölmiðlunar og þá ekki síst á sviði útvarps- og sjónvarpsreksturs. Uppákoman sem varð í fréttastjóramálinu fyrr á árinu sýnir að menn sætta sig ekki við að kröfur af þessu tagi séu sniðgengnar. Sé það rétt að Páli Magnússyni verði veitt staðan, en um það skal ekkert fullyrt, verður það ekki gagnrýnt frá faglegu sjónarmiði. Ekki eru margir í stétt fjölmiðlamanna sem eiga að baki jafn árangursríkan og farsælan feril. Páli er treystandi til að gera spennandi hluti á Ríkisútvarpinu fái hann á annað borð umboð til þess, og að því gefnu að sæmilegur friður takist um nýja löggjöf um stofnunina. En finna má að vinnubrögðum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra. Hún hefði í fyrsta lagi átt að láta koma skýrt fram í starfsauglýsingunni hvaða kröfur ráðuneytið gerir til útvarpsstjóra. Með því að skila auðu á því sviði er á vissan hátt verið að gengisfella embættið og gefa því undir fótinn að hæfniskröfurnar séu hrein geðþóttaákvörðun veitingarvaldsins. Í öðru lagi hefði verið til fyrirmyndar ef ráðherrann hefði farið þá leið að biðja umsækjendur að lýsa framtíðarsýn sinni varðandi Ríkisútvarpið, og látið valið meðfram ráðast af því hve hugmyndaríkir þeir væru. Ekki hefði verið verra ef samhliða hefði verið efnt til opinnar ráðstefnu þar sem umsækjendur hefðu kynnt almenningi hugmyndir sínar, og prófað þær í rökræðum. Kannski finnst ráðherra í Sjálfstæðisflokknum slíkt ferli minna um of á "umræðustjórnmál" sem því miður þykja víst frekar púkaleg í þeim ágæta flokki. En þá þarf að minna ráðherrann á að Ríkisútvarpið er almenningseign með sérstök markmið og skyldur, ekki fyrirtæki eða góss stjórnmálaflokkanna, og því er ekki óeðlilegt að settar séu fram kröfur um opið og lýðræðislegt ráðningarferli æðstu stjórnenda stofnunarinnar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Magnússon Skoðanir Mest lesið Það er ekki eitt, það er allt Diljá Matthíasardóttir Skoðun Hvað segir Morgunblaðið nú um stöðu litlu ríkjanna í ESB? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óáreiðanlegar mælingar og misvísandi fréttir Sigurjón Arnórsson Skoðun Líknarslæving við lífslok er umdeild meðferð Ingrid Kuhlman Skoðun Henta vísindin bara þegar þau styðja skoðanir okkar? Haukur Logi Jóhannsson Skoðun Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Tvær þjóðir í sama landi Einar Helgason Skoðun Unga fólkið okkar og samfélagsmiðlar Fjóla Einarsdóttir Skoðun Hvernig tölum við um mat í kringum börnin okkar? Berglind Lilja Guðlaugsdóttir Skoðun Hlutverk markmiða er að umbreyta okkur Árni Sigurðsson Skoðun
Líklegt er að einhverjir, sem höfðu hugsað sér að sækja um starf útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins, hafi hætt við þá fyrirætlan þegar sá orðrómur fór á kreik síðdegis á miðvikudaginn að búið væri að ráða í stöðuna bak við tjöldin þótt umsóknarfrestur væri ekki liðinn. Sagt var að Páli Magnússyni, sem þann dag gekk ósáttur frá starfi sjónvarps- og fréttastjóra Stöðvar tvö, hefði verið lofað embættið. Ekki þarf að koma á óvart að menn séu tilbúnir að leggja trúnað á sögusögn af þessu tagi. Það hefur verið regla fremur en undantekning að þannig sé staðið að verki hér á landi þegar ráðið er í eftirsóttar stöður hjá ríki og sveitarfélögum, að fyrst sé fundinn kandídatinn og síðan sé starfið auglýst. Þótt engar hæfniskröfur séu gerðar til útvarpsstjóra í lögum um Ríkisútvarpið eða auglýsingu menntamálaráðuneytisins verður að ætla að almenningsálitið krefjist þess að sá sem gegnir starfinu hafi víðtæka þekkingu og reynslu á sviði fjölmiðlunar og þá ekki síst á sviði útvarps- og sjónvarpsreksturs. Uppákoman sem varð í fréttastjóramálinu fyrr á árinu sýnir að menn sætta sig ekki við að kröfur af þessu tagi séu sniðgengnar. Sé það rétt að Páli Magnússyni verði veitt staðan, en um það skal ekkert fullyrt, verður það ekki gagnrýnt frá faglegu sjónarmiði. Ekki eru margir í stétt fjölmiðlamanna sem eiga að baki jafn árangursríkan og farsælan feril. Páli er treystandi til að gera spennandi hluti á Ríkisútvarpinu fái hann á annað borð umboð til þess, og að því gefnu að sæmilegur friður takist um nýja löggjöf um stofnunina. En finna má að vinnubrögðum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra. Hún hefði í fyrsta lagi átt að láta koma skýrt fram í starfsauglýsingunni hvaða kröfur ráðuneytið gerir til útvarpsstjóra. Með því að skila auðu á því sviði er á vissan hátt verið að gengisfella embættið og gefa því undir fótinn að hæfniskröfurnar séu hrein geðþóttaákvörðun veitingarvaldsins. Í öðru lagi hefði verið til fyrirmyndar ef ráðherrann hefði farið þá leið að biðja umsækjendur að lýsa framtíðarsýn sinni varðandi Ríkisútvarpið, og látið valið meðfram ráðast af því hve hugmyndaríkir þeir væru. Ekki hefði verið verra ef samhliða hefði verið efnt til opinnar ráðstefnu þar sem umsækjendur hefðu kynnt almenningi hugmyndir sínar, og prófað þær í rökræðum. Kannski finnst ráðherra í Sjálfstæðisflokknum slíkt ferli minna um of á "umræðustjórnmál" sem því miður þykja víst frekar púkaleg í þeim ágæta flokki. En þá þarf að minna ráðherrann á að Ríkisútvarpið er almenningseign með sérstök markmið og skyldur, ekki fyrirtæki eða góss stjórnmálaflokkanna, og því er ekki óeðlilegt að settar séu fram kröfur um opið og lýðræðislegt ráðningarferli æðstu stjórnenda stofnunarinnar.