Viðskipti innlent

Nýtt viðskiptablað í burðarliðnum

Nýtt viðskiptablað lítur dagsins ljós á íslenska fjölmiðlamarkaðnum í næsta mánuði. Það verður gefið út undir merkjum 365 - prentmiðla, sem einnig reka DV og Fréttablaðið. Gunnar Smári Egilsson, forstjóri fyrirtækisins, segir að blaðið verði gefið út vikulega undir ristjórn Hafliða Helgasonar sem verið hefur blaðamaður á Fréttablaðinu frá stofnun þess. Hafliði sagði í samtali við fréttastofu að fimm blaðamenn komi til með að starfa við blaðið og að búið sé að ráða í allar stöður. Fyrsti fundur starfsmanna hafi verið í gær. Blaðinu sé ætlað að keppa við alla fjölmiðla á landinu sem flytji fréttir af viðskiptum. Gunnar Smári staðfesti einnig að 365 prentmiðlar og ljósvakamiðlar gangi á allra næstu dögum frá ráðningu Jóhanns Haukssonar sem verið hefur dagskrárstjóri Rásar tvö en sagði upp í mótmælaskyni við ráðningu Auðuns Georgs Ólafssonar í starf fréttastjóra Ríkisútvarpsins. Gunnar Smári segir að starfssvið Jóhanns sé ekki enn fullmótað en að hann sé fjölhæfur maður með mikla reynslu og furðulegt að Ríkisútvarpið skuli ekki geta nýtt sér starfskrafta hans.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×