Viðskipti innlent

Ólafur nær yfirhöndinni í Keri

Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Samskipa, hefur tryggt sér 56 prósenta hlut í Keri í gegnum eignarhaldsfélag sitt Kjalar. Seljandi er Vogun sem er í eigu Kristjáns Loftssonar og Árna Vilhjálmssonar. Ker er eignarhaldsfélag sem ræður för í Samskipum, olíufélaginu Essó og hefur ítök í KB banka. Eignarhaldsfélagið Grettir sem er í eigu Sjóvíkur, Landsbankans og Tryggingamiðstöðvarinnar eignaðist ríflega þriðjungs hlut í Keri fyrir rúmri viku í tengslum við sameiningu Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og Sjóvíkur við litla gleði ráðandi eigenda Kers. Með þessum leik er Grettir læstur inni sem minnihlutaeigandi í Keri. Ekki er mikill áhugi á samstarfi milli Landsbankamanna og Ólafs. Samningsstaða Ólafs er eftir viðskiptin mun sterkari en hún var meðan hugsanlegt var að reka fleyg í samstarf hans við Vogunarmenn. Ekki er líklegt að Grettismenn hafi áhuga til langframa að vera áhrifslaus minnihlutaeigandi í Keri. Þeir geta kosið menn í stjórn Kers og hindrað breytingar á samþykktum félagsins, en ekki haft að öðru leyti áhrif á stefnu eða fjárfestingarákvarðanir félagsins.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×