Viðskipti innlent

Landsbankinn selur Og fjarskipti

Landsbankinn og Burðarás hafa selt hlut sinn í Og fjarskiptum, eiganda Og Vodafone og 365 fjölmiðlanna. Landsbankinn hefur átt langa samleið með fyrirtækinu frá kaupum í Íslandssíma fyrir um fimm árum síðan. Landsbankamenn telja að vel hafi tekist til með þetta umbreytingarverkefni. Ekki hafi staðið til að vera langtímaeigandi í fyrirtækinu. Arðsemin af fjárfestingunni sé ásættanleg. Kaupendur fimmtán prósenta hlutar í Og fjarskiptum er eignarhaldsfélagið Runnur, en að því standa Saxhóll, eignarhaldsfélag Nóatúnsfjölskyldunnar, Bygg sem er í eigu verktakanna Gunnars og Gylfa og fjárfestingafélagið Primus sem er í eigu Hannesar Smárasonar, stjórnarformanns Flugleiða. Þessir aðilar eru stærstu eigendur Runns og eigendur með Baugi í Húsasmiðjunni. Auk þeirra eru eigendur Runns, félagið Mogs sem er í eigu ungra athafnamanna, þeirra Magnúsar Ármanns og Sigurðar Bollasonar, sem seldu tískukeðju Baugs Karen Millen búðirnar og Vífilfell, framleiðandi Coca Cola á Íslandi. Magnús er varamaður í stjórn Og fjarskipta.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×