Viðskipti innlent

Samskip í hóp hinna stærstu

"Þetta er vissulega afar stórt skref fyrir Samskip og stór biti að kyngja fjárhagslega en við erum fullir bjartsýni og teljum okkur hafa gert góð kaup," segir Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa erlendis, eftir að tilkynnt var að félagið hefði keypt hollenska gámafyrirtækið Geest North Sea Line. Með kaupunum verður sameinað fyrirtæki Samskipa og Geest eitt stærsta gámaflutningafyrirtæki í Evrópu. Mun rekstur Samskipa erlendis verða sameinaður rekstri Geest og segir Ásbjörn, sem verður stjórnarformaður hins nýja fyrirtækis, að tækifærin samfara kaupunum séu mörg. "Geest er mjög virt fyrirtæki í flutningageiranum og ég hef þegar fengið mikil jákvæð viðbrögð hvaðanæva að í Evrópu vegna þessara kaupa okkar. Fyrir það fyrsta þá féll flutninganet Geest afar vel að okkar kerfi og má segja að það hafi smellpassað. Þeir eru afar sterkir á Englandi í á Írlandi og við höfum verið að leita hófanna með viðskipti þar um hríð. VIð sjáum fyrir okkur aukin sóknarfæri þar og enn víðar og ég tel víst að kaupin opna ýmsar dyr sem ekki stóðu okkur opnar áður. Þess utan er fyrirtækið framarlega á tæknilega sviðinu og hafa til að mynda verið frumkvöðlar í flutningi á 45 feta gámum til að ná sem bestri samkeppnisstöðu gagnvart flutningabílum." Allur gámarekstur Samskipa að undanskildum íslandsflutningum verður undir hatti Geest en það verður engu að síður dótturfyrirtæki Samskipa. Áætlanir gera ráð fyrir að velta sameinaðs félags verði um 45 milljarðar króna með starfsemi í 19 þjóðlöndum auk umboðsmanna víðar. Eimskip var um tíma einnig í viðræðum um kaup á þessu hollenska fyrirtæki sem nú tilheyrir Samskipum en að sögn Baldurs Guðnasonar, forstjóra, var fallið frá kaupum þar sem verðhugmyndir Hollendinganna þóttu of háar. "Þarna er að ýmsu leyti um gott og framsækið fyrirtæki að ræða en þeir fóru fram á rúma 3.5 milljarða króna og það þótti okkur ekki fýsilegt en á móti kemur að áherslur okkar liggja ekki á sama stað og hjá Samskipum."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×