Menning

Fleira í boði en Hvannadalshnúkur

"Algengasta ferðin sem ég fer með hópa eru stuttar göngur um skriðjökulinn með smá ísklifri," segir Einar Rúnar Sigurðsson fjallaleiðsögumaður í Skaftafelli. Einar Rúnar býður upp á allskyns ferðir um jöklana sem hann segir ægi fagra á þessum tíma. "Í dag eru þeir fallega bláir og því mjög sleipir. Á sumrin eru þeir hins vegar hvítir og skítugir en afar fallegir líka en svo verða þeir grænleitir þegar líður á haustið," segir Einar Rúnar. Ferðin um skriðjökulinn er farin á broddum en samkvæmt Einari geta nánast allir farið í þessa ferð. "Svo lengi sem fólk er ekki í hjólastól eða með mjög lítil börn. Við erum með skó og brodda á alla nema handa smábörnum. Á þessum tíma getur jökullinn verið alveg ofboðslega sleipur þannig að ég tek ekki nema tvo með mér í hverja ferð, miðað við 20 á sumrin. Við setjum náttúrulega öryggið í fyrsta sæti og ef einhver dettur eins og jökulllinn er núna rennur hann eins og á rennibraut niður í næstu sprungu."

Einar og eiginkona hans, Matthildur Unnur Þorsteinsdóttir, bjóða einnig upp ýmsa aðra þjónustu við ferðamenn á veturna en samkvæmt Einari eru Íslendingar alltaf að verða duglegri að notfæra sér aðstöðuna. "Útlendingar eru stór hluti viðskiptamanna okkar en Íslendingar eru farnir að líta á fleiri staði en hinn nauðsynlega Hvannadalshnjúk sem allir þurfa að komast upp á. Það er til svo margt annað og skemmtilegt í boði og nú loksins er fólk farið að spá í þessu sem afþreyingu."

Lestu ítarlegra viðtal í tímaritinu Magasín sem fylgir DV í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×