Viðskipti innlent

Vildu 42% meira en í boði var

Hluthafar í hlutafjárútboði Íslandsbanka hf. til forgangsréttarhafa óskuðu samtals eftir 42% meira en í boði var. Útboðinu lauk í gær en boðnir voru til sölu 1.500 milljón hlutir á 10,65 krónur á hlut og andvirði útboðsins því 16 milljarðar króna. Alls skráðu 4.153 hluthafar, sem eru eigendur 87% hlutafjár Íslandsbanka, sig fyrir útboðinu en áskriftartímabilið stóð frá 17. desember til 4. janúar.   Umframáskriftum hefur verið úthlutað í samræmi við innbyrðis forgangsrétt þeirra hluthafa sem óskuðu eftir að kaupa meira en nam forgangsrétti þeirra. Á næstu dögum verða sendir út greiðsluseðlar til hluthafa og mun Íslandsbanki afhenda hluthöfum hina nýju hluti eftir að áskriftir eru greiddar. Bankaráð Íslandsbanka mun á fundi sínum í dag taka ákvörðun um hvort nýtt verði heimild til sölu á 500 milljón hlutum án forgangsréttar til fjárfesta, en hún var veitt á hluthafafundi 3. nóvember sl. Niðurstaða bankaráðs verður kynnt fyrir opnun Kauphallar á fimmtudag.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×