Viðskipti innlent

Farþegafjöldi nær tvöfaldast

Farþegum Iceland Express fjölgaði um 88 prósent milli áranna 2003 og 2004. Meginskýring fjölgunarinnar er aukning sætaframboðs um helming með tilkomu nýrrar þotu til félagsins í byrjun apríl. Ferðum var síðan fækkað aftur til fyrra horfs þann 1. desember. Iceland Express mun þó í sumar bjóða upp á tvær ferðir á dag til London og Kaupmannahafnar og tekur breytingin gildi þann fyrsta maí að sögn Ólafs Haukssonar, talsmanns félagsins. Einnig sé verið að kanna möguleika á því að bjóða upp á að minnsta kosti einn áfangastað á meginlandi Evrópu en ákvörðunar þess efnis sé að vænta á næstu dögum. Ólafur neitar því að félagið eigi við fjárhagslega erfiðleika að etja. "Nýir fjárfestar komu inn í félagið í október síðastliðnum og það tryggði fjárhagslegan grunn okkar verulega," segir Ólafur. Fargjöld félagsins hafa hækkað nokkuð á síðustu mánuðum sem mátti rekja til hækkandi olíuverðs að sögn Ólafs. Hann neitar því að færri sæti verði framvegis boðin á lægsta verði. Hlutfall ódýrustu sæta sé mjög mismunandi milli ferða en til viðmiðunar sé gert ráð fyrir að um þriðjungur sæta sé boðinn á lægstu fargjöldum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×