Viðskipti innlent

Prentsmiðjan rifin

Prentsmiðja Morgunblaðsins í Kringlunni verður rifin og í staðinn byggt verslunarhúsnæði með atvinnustarfsemi og íbúðum ef áætlanir kaupandans, Klasa hf., ganga eftir. Hugsanlegt er að ritstjórnarskrifstofur Morgunblaðsins verði nýttar undir sameinaðan skóla þegar sameining Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík hefur komið til framkvæmda. Stjórn Árvakurs lýsti nýlega yfir að ákveðið hefði verið að flytja alla starfsemi Morgunblaðsins í nýtt húsnæði í Hádegismóa og gamla húsnæðið selt fasteignafélaginu Klasa hf. Hin selda eign er 7.000 fermetrar á stærð auk eignarlóðar í Kringlunni. Kaupverðið er samtals tveir milljarðar króna. Klasar greiða 1,5 milljarða fyrir fasteignir og lóðarrétt í Kringlunni eða um 215 þúsund krónur á fermetrann. Til viðbótar mun Klasi reisa nýtt 3.900 fermetra húsnæði í Hádegismóum fyrir 570 milljónir króna, eða rúmlega 146 milljónir á fermetrann. Gjarnan er talað um að viðmiðunarverð á nýbyggingu sé 150 þúsund krónur þannig að ljóst er að verðið í Kringlunni er hátt. Ragnar Atli Guðmundsson, framkvæmdastjóri Klasa, segir að verðið fyrir lóð og fasteignir Morgunblaðsins sé vissulega hátt en þarna sé um eina verðmætustu lóðina á landinu að ræða. Björn Þorri Viktorsson, formaður Félags fasteignsala, segir að staðsetning skipti stöðugt meira máli í fasteignaviðskiptum og lóðin hafi meiri áhrif á verð en áður. "Staðsetning skiptir miklu meira máli í verðlagningu í dag en hún hefur gert á liðnum árum. Þetta á bæði við um atvinnuhúsnæði og íbúðir. Við sjáum um þrefaldan mun á hæsta og lægsta fermetraverði á höfuðborgarsvæðinu í dag." Klasi hf. er nýstofnað fasteignafélag í eigu Íslandsbanka.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×