Verslunin er einstaklega falleg á að líta og er öll hönnun og innréttingar mjög stílhreinar. "Við seljum í raun allt nema föt. Við erum með aukahluti eins og skó, veski, skartgripi og belti. Við seljum líka vörur sem eru í stíl þannig að konur geta keypt sér belti, skó og tösku, allt í stíl á sama staðnum. Síðan er verðið svo gott að það er ódýrt að skipta út aukahlutunum og kaupa sér nýja," segir Kamilla en þær Þórdís eru vanar verslunar- og afgreiðslustörfum. "Þórdís er flugfreyja og ég á heildsölu með manninum mínum þannig að við erum þaulvanar og fylgjumst vel með straumum og stefnum í tísku. Það koma sex línur á ári í verslunina þannig að það er alltaf eitthvað nýtt á boðstólum."
Þórdís og Kamilla eru að vonum glaðar með verslunina enda hafa þær fengið feykigóðar viðtökur. "Fólk talar mikið um hve verðið sé gott og hvernig verslunin lífgi upp á Laugaveginn. Við höfum vægast sagt fengið æðislegar móttökur og það er frábært."
