Innlent

Kvartað yfir upplýsingaskorti

"Það er mjög mikið hringt í okkur út af þessu. Fólk er að átta sig á þessu núna því símareikningar margra hafa hækkað," segir Ingibjörg Magnúsdóttir hjá Neytendasamtökunum. Hinn fyrsta október tók sú breyting gildi að símafyrirtækjunum var gert kleift að bjóða viðskiptavinum sínum númeraflutning skiptu þeir um símafyrirtæki. Því er ekki lengur hægt að sjá á símanúmeri fólks við hvaða símafyrirtæki það skiptir og geta símnotendur því ekki verið öruggir um eftir hvaða gjaldskrá er farið eftir því dýrara er að hringja úr símum Símans í síma frá OgVodafone og öfugt en þegar hringt er innan sama símakerfis. Á dagtaxta kostar 11 krónur á mínútu að hringja milli GSM síma innan kerfi Símans, en sé hringt í síma frá OgVodafone kostar símtalið 23,9 krónur. Hjá OgVodafone kostar símtal í síma innan kerfis 10 krónur á mínútu en 20 krónur sé hringt í aðra farsíma. Neytendasamtökin hafa haft samband við Póst- og fjarskiptastofnun sem eru með málið í athugun og bíða svars frá þeim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×