Innlent

Engin laun til kennara

Þótt kennarar í grunnskólum, sem verið hafa í verkfalli, mæti til vinnu sinnar þessa viku fá þeir engin laun útborguð um þessi mánaðamót. Beðið verður eftir því hvort kennarar samþykkja miðlunartillögu sáttasemjara áður en farið verður að huga að launagreiðslum til þeirra. "Það skýrist ekkert fyrr en ljóst verður hvað verður um miðlunartillöguna," segir Birgir Björn Sigurjónsson hjá Reykjavíkurborg. "Kennarar sem hafa verið í starfi á undanþágu fá laun greidd en ekki þeir sem eru í verkfalli. Verkfallið hófst 20. september og þeir voru flestir búnir að fá fyrirfram greidd laun fyrir septembermánuð, þannig að þarna hallar frekar á þá en vinnuveitandann." Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, starfsmannstjóri Hafnarfjarðarbæjar, segist telja að þessi háttur verði hafður á í öllum sveitarfélögum, enda sé það venjan þegar verkföllum lýkur að gert sé upp eftir að samningur hefur verið samþykktur. "Við getum ekki borgað út eftir sáttatillögu, samningi sem ekki er búið að samþykkja."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×