Innlent

Útflutningur fjórtánfaldast

Útflutningur hugbúnaðar og tölvuþjónustu hefur nær fjórtánfaldast á tíu árum. Upplýsingatækniútflutningur nam árið 1994 268 milljónum króna, en nam á síðasta ári rúmlega 3,7 milljörðum króna og hafði þá aukist um 9,5 prósent frá fyrra ári. Í úttekt Seðlabanka Íslands kemur fram að fyrirtæki sem hafa hugbúnaðargerð og ráðgjöf sem aðalatvinnugrein hafi staðið undir 85 prósentum af útflutningnum og að útflutningur þeirra hafi aukist um 23 prósent frá árinu 2002. "Útflutningur fyrirtækja í öðrum atvinnugreinum á hugbúnaði og tölvuþjónustu dróst hins vegar saman," segir í skýrslu bankans sem kom út í sumar. Fram kemur að viðskipti með hugbúnað og þjónustu tengda honum hafa vaxið hratt á undanförnum árum og að stærsta markaðssvæði íslensks hugbúnaðar sé Evrópa, en hlutdeild Evrópu er sögð hafa vaxið á kostnað Bandaríkjanna undanfarin ár. "Á milli áranna 2002 og 2003 jókst útflutningur hugbúnaðar til Evrópu um tæpar 400 milljónir króna reiknað á föstu gengi á meðan útflutningur til Bandaríkjanna dróst saman um 66 milljónir króna. Hlutur Evrópu var orðinn rúmlega 69 prósent alls hugbúnaðarútflutnings í fyrra," segir í skýrslu Seðlabankans. Frosti Bergsson, stjórnarformaður Opinna kerfa group, segir að merki séu um sígandi lukku í upplýsingatæknigeiranum. "Almennt má segja að markaðurinn hafi verið að taka við sér, ekki snögglega, heldur höfum við bara verið að sjá jákvæða þróun. Við höfum farið í gegnum samdrátt og svo verið að síga upp á við aftur," segir hann. Frosti bendir á að fyrirtækjum hafi fækkað í greininni og að undanfarið hafi aukist fjárfestingar sem lífgi við markaðinn. "Bankar og fjármálastofnanir fóru fyrst af stað með fjárfestingar og svo símafélögin líka sem héldu dálítið að sér höndum eftir að netbólan sprakk. Þau þurftu aðeins að taka til í sínum ranni eftir. Svo var líka bara komin þörf á endurnýjun hjá almennum heimilum og fyrirtækjum," bætir hann við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×