Innlent

Vefsíður sem luma á óværu

Fyrir skömmu vöruðu sérfræðingar á sviði upplýsingaöryggis við nýrri óværu á Internetinu sem stolið getur aðgangsorðum og reikningsupplýsingum fólks sem notast við heimabanka í tölvum sínum. Notendur geta fengið óværuna í tölvur sínar úr sumum "pop-up" auglýsingum sem spretta upp frá síðum sem vafrað er inn á á Internetinu. Auglýsingarnar hlaða í laumi niður hugbúnaði sem nemur innslátt á lyklaborð notandans, þar með talið leyniorð og reikningsupplýsingar. Auglýsingar þessar áttu uppruna sinn á vefsíðum sem sjálfar virtust hafa verið "hakkaðar" til að koma inn óværunni. Óværan ræðst á Internet Explorer netvafra Microsoft. Sérfræðingar segja að notendur geti varist með því að nota aðra vafra, eða með notkun hugbúnaðar sem stöðvar "pop-up" auglýsingar. Þá geta notendur Internet Explorer gert vafra sína ónæma fyrir óværunni með því að hlaða niður nýjustu öryggisviðbótum Microsoft. Notendum vafrans hefur jafnframt verið ráðlagt að setja öryggisstillingu hans á "High" en þannig eru samskipti við vefsíður torvelduð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×